Þaninn kviður

10 Dec 2014

Sæl Inga.

Ég er með pínu meltingarvandamál, er reyndar með ger ofnæmi, þannig að ég reyni að forðast brauð og kex. Málið er það ég er og mér finnst ég alltaf þanin, eins og ég sé komin einhverja mánuði á leið. Ansi hvimleitt. Ég tek það fram ég er í kjörþyngd, en er á óreglulegu fæði þannig séð, tek reyndar töluvert af prótín dufti og stöngum og amino sýrum og vítamínum.

Með fyrirfram þökk og með óskir um einhverja lausn, eða bara einhverja punkta.

Kv MG.

Sæl MG.

Takk fyrir spurninguna.

Já, þetta er í meira lagi hvimleitt og margir tala um að þeir passi ekki í sömu buxnastærð að morgni og kvöldi, vegna uppþembu!

Ég myndi byrja á að skoða próteinið og stangirnar sem þú ert að borða. Svona vörur erum mjög misjafnar og margar þolast mjög illa sökum illmeltanlegra innihaldsefna. Margar þessar vörur innihalda mjólkurprótein (Casein), sem er vægast sagt þungmelt (enda ætlað kálfum) og margir þembast upp af því. Kíktu á innihaldslýsinguna og athugasðu hvað þú finnur þar. Það er hægt að fá mörg góð alveg hrein prótein, úr gæða hráefni. Þú getur séð hugmyndir hér til hægri á síðunni.

Óreglulegt mataræði hjálpar ekki, meltingarfærin vita þá aldrei hvenær þau eiga von á verkefnum. Meltingin þín virkar best ef regla er á hlutunum og máltíðir nánast alltaf á sama tíma. Reyndu endilega að breyta þessu, það mun örugglega hjálpa þér.

Þú talar um að þú þolir illa ger. Það leynist mjög víða í matvælum, jafnvel í fæðu sem fáa grunar um græsku. Kíktu endilega vel eftir gerinu á innihaldslýsingum,  þú getur fundið lista yfir heiti gers í matvælum á netinu.

Það hjálpar mörgum í þessari stöðu að taka inn meltingarensím og vinveitta gerla fyrir meltinguna.

Ensímin hjálpa þá meltingunni þinni að vinna á fæðunni og minni hætta á uppþembum. Þau þarftu að taka með hverri máltíð, allavega þeim stærri. Þú getur séð hvernig meltingarensímin líta út hér til hægri.

Vinveittir meltingagerlar (Asídófílus) eru oftast algjör nauðsyn þegar kemur að svona vandamálum. Ef þarmaflóran er ekki rétt samsett getur að svo sannarlega leitt af sér uppþembur og vandræði. Taktu endilega inn gerla, þeir fást í ýmsum útgáfum. Hugmyndir hér til hægri.

Endilega drekktu svo vatnsskammt dagsins á milli máltíða, ekki með mat. Það hjálpar oft.

Prófaðu svo að byrja daginn á vatnsglasi (helst volgu) með ½ sítrónu kreistri út í. Þetta vekur meltinguna þína og hvetur til góðra verka.

Vonandi hjálpar þetta eitthvað.

Gangi þér vel,

Inga næringarþerapisti.