Hvaða bætiefni henta þér?

02 Jan 2017

Þá er nýtt ár gengið í garð og margir hafa strengt sér heit um allskonar heilsubætandi aðgerðir. Betra mataræði, fara í ræktina, hætta að reykja, minnka stress og fleira í þá áttina. Þessum lífsstílsbreytingum fylgir oft löngun til að ná sér í einhver bætiefni sem gætu stytt leiðina og létt lífið. Flestir ef ekki allir hafa séð auglýsingar varðandi hin og þessi efni, sem eiga hreint út sagt að gera kraftaverk á líðan og heilsu. Oftar en ekki staðhæfa þessar auglýsingar að bætiefnin grenni, yngi, gefi aukna orku og minnki hrukkur og verki.

En eru þessi bætiefni að virka?

Oft gera þau það, svo sannarlega. Bak við mörg þeirra liggja rannsóknir sem sýna fram á virknina. Það er þó ekki algilt! Það er líka þannig, að það sem virkar fyrir einn virkar kannski ekki fyrir annan. 

Hvað er þá best að gera í þessu? Hvaða bætiefni er best að fá sér?

Flest allir hafa gott af því að taka inn vandað fjölvítamín, Omega 3, meltingargerla (asídófílus) og D vítamín. Það er gott að byrja á þessum grunnbætiefnum, frekar en hlaupa eftir næsta æðinu. Svo er nauðsynlegt að gera svolitla þarfagreiningu á sjálfum sér og reyna að finna út hvað það er sem gæti gagnast. Þá má spyrja hvort fyrir hendi séu einhver sértæk vandamál eða óskir. Liðverkir, bólgur, húðvandamál, andleg vanlíðan, svefnleysi, meltingarvandamál, breytingaskeiðseinkenni, blöðruhálskyrtilsvandamál, aukakíló eða sinadrættir, listinn getur verið langur. Þegar svo komið er á hreint hvað á að vinna með, þá kemur að næsta vandamáli.

Hvaða tegund eða merki ætti að velja? Er allt jafn gott sem finna má í bætiefnahillum verslananna?

Nei, svo sannarlega ekki. Það er ágætt að hafa ákveðna hluti í huga. 

•    Ef bætiefnið er mjög ódýrt, þá eru gæðin líklega ekki mjög mikil. 
•    Það er í flestum tilfellum betra ef bætiefni eru í hylkjum, dufti eða vökvaformi, þá nýtast þau betur. 
•    Steyptar pillur eiga það til að leysast illa upp og skila því litlu.
•    Best er ef bætiefni eru laus við aukaefni og því fleiri slík, því verra. 
•    Gervisykur ætti ells ekki að fyrirfinnast í neinu bætiefni.

Svo er málið að taka fíneríið inn! Það gerir mjög lítið gagn ofan í skúffu. Eins þarf að átta sig á því að kraftaverkin gerast ekki á einni nóttu og mörg bætiefni þarf að taka vikum saman áður en árangurinn lætur á sér kræla. Það er ágætis þumalputtaregla að taka þau allavega inn í 3 mánuði og ef ekkert virðist gerast, þá má reyna eitthvað annað. Margir tala um að þeim finnist þeir aldrei finna mun á sér af bætiefnum. Það getur svo sannarlega verið en oft áttar fólk sig á áhrifunum, þegar það hættir að taka bætiefnið inn og einhver löngu gleymd einkenni taka sig upp aftur. 

Í Heilsuhúsinu getur þú fengið aðstoð starfsfólks verslanana um val á réttu bætiefnunum fyrir þig.