Hugsaðu um húðina

25 Jan 2018

Húðin er stærsta líffærið og það mæðir mikið á henni. Hún ver okkur fyrir hita og kulda og er mikilvæg sýklavörn. Þá er hún mikilvæg fyrir hitastjórnun líkamans og vökvajafnvægi. Við skynjum umhverfi okkar að miklu leyti með húðinni og hún getur framleitt D-vítamín.

 
Húðin gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum en flestir spá mest í útliti hennar. Hrukkur og appelsínuhúð, baugar, ör og slit eru eitthvað sem veldur mörgum vanlíðan. Margir leggja mikið á sig til að dekkja húðina og aðrir skreyta hana með húðflúrum. 
 
Ég gæti skrifað langa romsu um að þið ættuð bara að læra að elska hrukkur og slit en það er ekki bara hégóminn einn að vilja hafa fallega húð. Ástand húðarinnar getur nefnilega sagt okkur heilmikið um heilsuna.
 
Baugar geta verið merki fæðuóþols. Húðin verður þurr ef við drekkum ekki nóg og ef okkur skortir góðar fitusýrur. Fölvi getur þýtt járnskort, bólur geta orsakast af þarmaflóruójafnvægi og líflaus húð getur verið merki um skort á ýmsum næringarefnum.
 
Gott og fjölbreytt mataræði er grunnurinn að fallegri húð eins og það er grunnurinn að góðri heilsu almennt. Gott er að fylgja nokkrum grunnreglum:
 
GOTT FYRIR HÚÐINA
  • Drekktu nóg af vatni, 1,5-2 lítra á dag og meira ef þú hreyfir þig.
  • Borðaðu sem mest af grænmeti og ávöxtum. Andoxunarefnin vernda húðina og næringarefnin sjá henni fyrir næringu til að blómstra.
  • Borðaðu næga fitu, feitan fisk, fræ, hnetur og kaldpressaðar olíur.
  • Sofðu nóg.
  • Forðastu streitu.
  • Haltu sykri í lágmarki.
  • Skoðaðu hvort eitthvað í fæðunni gæti verið að erta húðina. Mjólkurvörur eru t.d. þekktar fyrir að hafa slæm áhrif á exem og bólur. Til að mynda losnaði ég við bólurnar þegar ég tók út mjólk.
 
SLÆMT FYRIR HÚÐINA
  • Skortur á næringarefnum.
  • Streita og svefnleysi.
  • Sykur.
  • Mengun.
  • Slæm umhirða.
  • Unnin matvara, unnið kjöt og sérstaklega brúnað, grillað og brennt kjöt. Við eldun eykst magn advanced glycation end products (AGEs) í kjöti sem geta m.a. ýtt undir bólgur og haft slæm áhrif á uppbyggingu húðarinnar.
 
VÖNDUM VALIÐ
Umhirðan skiptir líka máli og við ættum því að velta vel fyrir okkur hvað við notum á húðina. Húðin dregur í sig allt sem við setjum á hana og ef snyrtivörurnar sem við notum eru fullar af kemískum efnum komast þau inn í blóðrásina og líkaminn þarf að vinna úr þeim. 
 
UMHIRÐA
  • Veldu náttúrulegar snyrtivörur sem eru sem mest lausar við kemísk efni.
  • Lestu innihaldslýsingar og lestu þér til um efnin (www.ewg.org/skindeep er gagnabanki á netinu þar sem hægt er að fletta upp öllum efnum sem finnast í snyrtivörum).
  • Þurrburstun er frábær til að styrkja og stinna húðina.
  • Hreinar olíur eins og möndlu- eða jojobaolía eru frábærar til að bera á húðina eftir sturtu eða bað, líka í andlitið fyrir svefninn hvort sem þú ert með feita eða þurra húð.
HVAÐA BÆTIEFNI GETA HJÁLPAÐ?
Það er til fullt af bætiefnum sem geta gagnast húðinni en kollagen er eitt af þeim vinsælustu um þessar mundir. Kollagen er eitt af aðal uppbyggingarefnum húðarinnar. Það heldur henni sterkri og teygjanlegri. Líkaminn framleiðir kollagen úr amínósýrum en með aldrinum hægir á þessu ferli, endurnýjun húðarinnar verður minni, teygjanleiki minnkar og fínar línur og hrukkur fara að myndast.
Kollagen sem bætiefni hefur verið rannsakað töluvert og virknin lofar góðu. Gott vatnsrofið (hydrolysed) kollagen gagnast t.d. í húð og liðum og örvar okkar eigin kollagenframleiðslu. Það styrkir því í raun innviði húðarinnar, dregur úr misfellum, línum og hrukkum og gefur húðinni meiri fyllingu. Það getur því haft sjáanleg yngjandi áhrif auk þess sem inntaka þess linar oft ýmis liðvandamál. 
 
ANNAÐ SEM GETUR HJÁLPAÐ ER:
  • Hyaluronic sýra er mikilvæg 
  • fyrir rakastig húðarinnar og 
  • smyr liðina líka.
  • C-vítamín er andoxunarefni sem ver gegn öldrun og er mikilvægt fyrir kollagenframleiðslu.
  • Omega fitusýrur, t.d. hampfræolía, hörfræolía, kvöldvorrósarolía og fiskiolía.
  • D-vítamín er mikilvægt fyrir endurnýjun húðarinnar og svo margt annað.
  • CoQ10 er andoxunarefni sem ver allar frumur fyrir öldrun. Framleiðslan minnkar með aldrinum en það er líka mjög mikilvægt fyrir hjarta og æðakerfi.
  • Kísill styrkir húð, hár og neglur en kísill á m.a. þátt í kollagenframleiðslu

Höfundur: Ösp Viðarsdóttir Næringarþerapisti