2 ára og fær allar pestar

30 Jan 2015

Sæl Inga.

Ég á einn 2 og 1/2 árs strák sem er með lélegt ónæmiskerfi og er þar af leiðandi mjög pest sækinn. Hann er nànast alltaf með kvef og hósta og oftar en ekki leiða pestirnar af sér lungabólgu. Er eitthvað sem ég get gert til að styrkja ónæmiskerfið hjà honum? Hann er með fæðuofnæmi/óþol og fær ekki mjólk, egg, banana og maís. Hann er einnig viðkvæmur fyrir soja. Hann fær lýsi á hverjum degi og svo reyni ég að gefa honum vítamín og achidophilus en það gengur misvel. Hann hefur alla tíð sofið illa á nóttunni, verið viðkvæmur í meltingarvegi og á oft erfitt með skapið. Okkur grunar að hann geti verið með bakflæði sem gæti orsakað hóstann og vorum að byrja að gefa honum lyf við því. Við foreldrarnir erum orðin þreytt à endalausum veikindum og því eru öll ráð vel þegin.

Sæl vertu.

Ég skil vel að þetta sé farið að taka á ykkur og ekki til neitt einfalt ráð við þessu. Fókusinn myndi ég þó segja að ætti að vera á meltingunni og þá ætti ónæmiskerfið að ná sér á strik.

Það er auðvitað mikilvægt að halda áfram að halda frá honum þessum matvörum sem valda honum óþoli og ofnæmi. Ofnæmi er auðvitað eitthvað sem er mun alvarlegra og mjög mikilvægt að sleppa fæðu sem vekur ofnæmisviðbrögð. Óþolið er miklu lúmskara og oft erfitt að átta sig á hvaða fæða veldur því. Það er spurning hvort eitthvað leynist enn í mataræði hans sem getur verið að trufla? Það er um að gera að skoða það.

Þú minnist ekkert á hvaða fæðu hann borðar. Er hann duglegur við að borða grænmeti, kjöt, fisk og allan hollan og góðan mat? Er mataræðið hans fjölbreytt og næringarríkt? Endilega skoðaðu það ef svo er ekki og leitaðu allra ráða til að hann nærist vel.

Það er mjög mikilvægt að hann fái góðgerlana (Acidophilus) og mikilvægt að velja einhverja vöru sem hentar þetta ungum börnum. Það gæti hjálpað honum að fá smá papaya ensím með máltíðunum, bara brot úr töflu (Þetta eru tuggutöflur) sem hann gæti tuggið fyrir máltíðir. Það er óhætt að gefa börnum papaya ensím og yfirleitt finnst þeim þau bragðgóð.

Ég myndi prófa að gefa lýsinu frí og gefa honum frekar aðra olíu á meðan. Til dæmis Efalex. Svo gætir þú gefið honum D vítamín dropa með, þar sem Efalex inniheldur ekki D vítamín.

Þú getur séð vörurnar sem ég tala um hér til hægri á síðunni.

Gangi ykkur vel og vonandi fer guttanum þínum að líða betur.

Kær kveðja,

Inga næringarþerapisti