Þurr húð, hvað er til ráða?

25 Aug 2017

Sæl Inga.

Mig þyrstir í að vita hvort þú átt ráð handa mér.

Þannig er að húðin mín er mjög þurr og ég er með mikinn þurrk í ring um augu og í hársverði.

Einnig er ég alltaf mjög slæm á báðum hælum en þó er sá hægri oft verri. Finnst stundum eins og líðan í kring um augu og í hárinu hafi með veðurfarið að gera og kuldinn hafi áhrif.

Kveðja SH

Sæl vertu.

Takk fyrir spurninguna.

Þurrkur í húð er algengt vandamál. Margir segja, líkt og þú, að einkennin versni mikið þegar kalt er í veðri, eða þegar miklar hita og rakabreytingar ganga yfir. Fólk bregður á það ráð að bera endalaust á sig krem, húðin drekkur vel í sig, en svo byrjar allt að þorna jafn harðan aftur.

Ástæðan er þá sennilega sú, að líkaminn þarf sannarlega á smurningu að halda, en innvortis frekar en útvortis! Oftast stafar húðþurrkurinn af því að viðkomandi vantar einfaldlega meiri góða fitu í kroppinn, án þess að átta sig á því.

Ákveðnar  tegundir fitu eru lífsnauðsynlegar (Essential fatty acids), sem þýðir að mannslíkaminn getur ekki framleitt þær sjálfur eða unnið úr öðru.

Þetta eru omega 3 og omega 6 fitusýrurnar. Því er nauðsynlegt að fá þessa fitu úr fæði eða með inntöku bætiefna og einkennin sem þú lýsir bera vott um skort á þessum fitusýrum.

Er eitthvað fleira sem þú finnur fyrir? Liðverkir, hormónatruflanir, orkuleysi, depurð, hárlos eða eitthvað annað? Þessi einkenni geta öll tengst því að þig vanti þessa fitu.

Það sem ég myndi ráðleggja þér er að taka inn fitusýrur, annaðhvort í fljótandi formi eða í hylkjum. Það er fjölmargt í boði og ég set hugmyndir hér til hægri á síðunni. Best er að taka nokkuð stóra skammta og dreifa þeim yfir daginn.

Þú ætti samt að athuga að ein þessara vara inniheldur D vítamín, þannig að ef þú tekur það fyrir þá þarftu kannski að endurskoða skammtastærðina.

Einnig er varasamt að taka mikið af svona fitusýrum ef þú tekur blóðþynnandi lyf. Reyndu svo að endurskoða mataræðið og reyna að fá þessa góðu fitu úr hnetum, fræjum, kaldhreinsuðum olíum og feitum fiski.

Ég myndi ráðleggja þér að byrja á þessu.

Ef þetta gengur ekki, þá þarftu kannski að spá í hvort þú sért ekki að ná á fullnægjandi hátt að melta, brjóta niður og nýta fituna sem þú tekur inn. Þá má leita annarra ráða eins og taka inn jurtir og meltingarensím, sem geta aðstoðað við þetta. Það væri einnig gott að leita til læknis og fá úr því skorið hvort þetta sé einhverskonar exem eða sýking í hársverðinum og í kringum augun.

 

Gangi þér vel með þetta,

Kær kveðja,

Inga nærinagarþerapisti

Copyright: evgenyatamanenko / 123RF Stock Photo