Vindgangur og krampar

31 Aug 2017

Sæl Inga.

Ég er í smá basli með meltinguna, eða öllu heldur fæ ég verki hægra megin í kviðinn sem læknir telur ristilkrampa og fékk ég lyf sem mér finnst ekki gera mikið fyrir mig, ég er með vindgang og óþægindi út af þessu. Getur verið ég sé með óþol fyrir hveiti eða einhverju öðru sem veldur þessum krömpum ?

Hef verið svona um langan tíma og nú er svo komið að mér líður best þegar ég borða sem minnst.

Kveðja,

E

Sæl vertu E.

Ég reikna með að læknirinn þinn sé búin að skoða þetta í þaula með þér, þannig að mín svör miðast við að ekkert sé undirliggjandi sem þarfnast meðhöndlunar þeim megin frá.

Svona krampar og óþægindi eiga að mínu mati oft rót í fæðuóþoli eða einhverskonar ójafnvægi í meltingunni. Fæðuóþol er talsvert algengt og það eru ákveðnar fæðutegundir sem eru algengir óþolsvaldar. Mjólkurvörur, hveiti, glúten og ger eru algengir óþolsvaldar, en í raun er ansi margt sem getur verið að trufla. Í raun hvaða fæða sem er, þannig lagað.

Það er ágætt fyrir þig að skoða hjá þér mataræðið, með tilliti til þessa. Er einhver þessara fæðutegunda sem þú notar daglega? Er einhver fæðutegund sem þú borðar mjög mikið af og ert kannski dálítið fíkin í?

Einhaft fæði getur leitt af sér fæðuóþol og það er oft sú fæða sem við ofnotum sem fer að valda óþolseinkennum.

Þú nefnir engin önnur einkenni en þessa krampa. Oft á tíðum fylgja fleiri einkenni fæðuóþoli, eins og hægðavandamál, höfuðverkir, liðverkir, húðvandamál, öndunarfærasýkingar, ennis og kinnholubólgur, og fl og fl. Kannast þú við eitthvað slíkt?

Það gæti verið sterkur leikur fyrir þig að leita til næringarþerapista sem gæti hjálpað þér að finna út úr þessu, eða bara prófa þig áfram með að útioka fæðutegundir. Þá er nauðsynlegt að útiloka meintan óþolsvald í allt að 3 mánuði, til að átta sig á hvort það hefur áhrif eður ei.

Hvað varðar meltinguna, þá gæti líka verið gott að hjálpa henni aðeins með því að taka inn bætiefni sem geta haft góð áhrif. Þá er ég að meina vinveitta meltingargerla/asídófílus (Probiotics) og meltingarensím. Þarmaflóran skiptir öllu máli þegar kemur að heilsu og vellíðan og það getur hjálpað stórksotlega að taka inn vinveitta gerla sem skipta mannslíkamann svona miklu máli. Ensímin geta hjálpað við niðurbrot fæðunnar og skerpt á kerfinu þannig að meltingin lendir síður í vandamálum. Einnig getur verið gott að taka inn L-glutamin, sem er amínósýra sem hefur góð áhrif á slímhúð meltingarvegarins.

Hér til hægri á síðunni getur þú séð dæmi um svona bætiefni.

Gangi þér allt í haginn og ég vona þetta svar hafi hjálpað þér eitthvað.

Kær kveðja,

Inga næringarþerapsiti