Dásamlegar vegan dekurolíur fyrir óléttar konur

25 Jan 2022

Ég vil byrja á að taka það fram að ég er ekki af þeirri skoðun að ég trúi því að hægt sé að koma í veg fyrir slitför. Á fyrstu meðgöngunni minni reyndi ég allt sem ég gat. Ég bar á mig sértilgerðar bumbuolíur kvölds og morgna og E-vítamín krem þess á milli og var svo miður mín þegar ég sá nokkuð snemma á meðgöngunni að ég var að fá slit. Undir lok meðgöngu var ég orðin vel skreytt slitum og skildi ekkert í því, þar til ég fór að lesa mér meira til um meðgöngu, fæðingu og kvenlíkamann yfir höfuð. 

Margt bendir til þess að líkurnar á því að fá slitför á meðgöngu sé ættgengt, í mínu tilfelli átti það við, auk þess sem ég er einfaldlega frekar lítil kona sem fær alltaf RISA stórar óléttubumbur, það er kannski engin furða að húðin mín finni ekki hjá sér mikinn aukinn teygjanleika á leifturhraða til þess að bregðast við þessum bumbum. Og í dag veit ég að það er bara allt í lagi, svona er lífið og núorðið finnast mér tígrisrendurnar á bumbunni bara svoldið töff ummerki um krefjandi ferðalög sem skila þvílíkum dásemdar ávöxtum.

EN það er annað sem ég trúi mjög innilega á og það er að fólk þurfi að gera eins vel við sig, eða óléttu maka sína, og hægt er á þessum krefjandi ferðalögum. Sjálfsdekur er að mínu mati dýrmætt og hollt öllum, en sérstaklega er það mikilvægt í kring um barnsburð, þá bæði á meðgöngunni og eftir fæðingu þegar líkaminn er þreyttur og hormónarnir í hæstu hæðum. Það er ótrúlegt hvað það að ákveða að gefa sér smá tíma í friði til þess að hlúa að líkamanum getur gert mikið fyrir andlega líðan, jú og vissulega líkamann í leiðinni. Þess vegna hef ég á báðum meðgöngum og þar í kring (eldri sonur minn er 3 ára, ég er núna gengin rúma 8 mánuði með yngri soninn) sett mér það markmið að gera eins vel við mig og ég mögulega get, afþví þessu langa ferli fylgja vissulega ýmis líkamleg óþægindi sem erfitt er að komast hjá og þá er gott að vega upp á móti með reglulegum huggulegheitum.

Frábær dæmi um dekur sem eiga vel við á/eftir meðgöngu eru til dæmis: fótabað, djúsí maskar, safarík serum, nærandi andlitskrem, ljúdar líkamsolíur, frábær fótakrem, kúl kroppakrem og allt sem lætur þér líða eins og þú sért að fá það dekur sem þú átt skilið, því öll eigum við það skilið! Athugaðu samt að á meðgöngunni skiptir jafnvel enn meira máli en vanalega að nota hreinar og góðar vörur, eða búa þær til sjálf úr hráefnum sem þú getur treyst. Svo er auðvitað ekki síður gott fyrir líkama og sál að komast í meðgöngujóga, flot, nudd eða hugleiðslu og borða góðan og nærandi mat (ef þú mögulega getur, það er ekkert sjálfsagt með ógleði og bakflæði og hvaðeina, látið mig þekkja það!) og muna að taka vítamín við hæfi, barnið tekur nefnilega af þínum skömmtum.

En tölum nú um heimadekrið! Ég elska að búa til húðvörur heima og prufa mig áfram með allskonar ilmblöndur, ég grínast stundum um það að ég lifi lífinu óvenjulega mikið gegn um nefið afþví ég er svo næm og viðkvæm fyrir lyktum, en fátt gleður mig meira en að finna virkilega góða og náttúrulega ilmi. Að því sögðu á ég líka í svolítið flóknu sambandi við ilmvötn og snyrtivörur þar sem ég er með ofnæmi fyrir örugglega 80+% af kemískum snyrtivörum og ilmvötnum, sem hefur verið hvetjandi í að kynnast náttúrulegum snyrtivörum og ilmum og læra að búa til vörur úr innihaldsefnum sem ég þekki.

Hér að neðan fylgja tvær uppskriftir af dekur-bumbuolíum sem ég vann í samvinnu við Heilsu, ein sem hentar vel til að koma sér í gírinn á morgnanna og önnur sem hjálpar okkur að finna ró fyrir háttinn. En ég flokka olíurnar frekar sem dekurolíur heldur en slitfaraolíur, ágæti þeirra sem dekurolíur er nefnilega algerlega óháð því hvort konur slitni eða ekki. Þær eru búnar til úr ýmsum góðum olíum sem geta hjálpað húðinni að takast á við álagið að þurfa að teygjast mikið og hratt, en ég trúi því að hverskonar nærandi olíur og nudd geti hjálpað húðinni, þó svo ég trúi ekki á það að við getum stjórnað því hvort við slitnum eður ei. Auk þess finnst mér verðugt markmið að reyna að taka frá stund daglega, til dæmis fyrir háttinn, til þess að dekra við bumbuna. Gefa duglega líkamanum þínum og litlu manneskjunni sem hann er að rækta óskipta athygli þó ekki sé í nema nokkrar mínútur, til þess að tengja við líkamann þinn sem virðist breytast mínútna á milli á þessum tíma. Þetta hjálpaði mér mikið á fyrri meðgöngu þar sem ég fékk heiðarlega risastóra bumbu, en ég var algjört písl þegar ég varð ólétt. Mér fundust breytingarnar erfiðar (ekki síst athugasemdirnar sem stórri bumbu fylgdu) en það að vera í góðu sambandi við líkamann hjálpaði mikið að sporna gegn spéhræðslu og ótta við breytingarnar, jú og slitin sem komu snemma og eru mörg.

Hvaða grasagrams og náttúrulækningar varðar þá hef ég lengi verið áhugasöm um þau fræði, enda alin upp á heimili þar sem óhefðbundin hollusturáð, jurtatínsla og jurtafæði tíðkuðust frá því ég man eftir mér. Það hefur því alltaf verið mér eðlistætt að hugsa um heilsu á heildrænan máta og reyna að bregðast við hverskonar kvillum á sem náttúrulegasta máta. Hvað ilmkjarnaolíur varðar þá hef ég meðal annars setið námskeið í notkun þeirra í hreingerningar og snyrtivörugerð, lesið ýmiskonar bækur og spurt mér fróðari konur ráða (til dæmis Lindu í Heilsuhúsinu Lágmúla sem er þvílíkur viskubrunnur!) og er enn að sanka að mér þekkingu. Í stuttu máli þá er ég ekki sérmenntuð í faginu, en er stöðugt að safna þekkingu úr ýmsum áttum og hef þar að auki aflað mér nokkurrar reynslu á eigin (sjúklega viðkvæma skinni) til þess að byggja ráðleggingar á.

PS. Ef ykkur langar að fletta upp hvaða olíur eru taldar öruggar á meðgöngu og í kring um lítil börn mæli ég með bókinni „The Complete Book of Essential Oils for Mama and Baby: Safe and Natural Remedies for Pregnancy, Birth, and Children„ eftir Christina Anthis, hún er aðgengileg og fróðleg.

Olíurnar
Það er til svo mikið af girnilegum grunnolíum, en það er mikilvægt að þynna ilmkjarnaolíur áður en þær eru bornar á húðina til þess að forðast ofnæmi. Margar hverjar eru þær mjög sterkar og geta orðið ertandi ef óvarlega er farið. Eins mæli ég með því að þvo hendur vel til eftir að hafa sett saman olíublöndur, til þess að forðast að fá óvart olíu í augu eða munn.

Nokkur dæmi um grunnolíur eru möndluolía, avókadóolía, hampolía, jojoba olía, castorolía, rósaberjaolía og gamla góða ólífuolían (það má oft redda sér með því sem er til heima).

Það getur verið gott að bæta E-olíudropum út í húðolíur, þeir lenga líftíma olía og þykja góðir gegn örum og slitum, til dæmis. Eins getur oft verið sniðugt að blanda sama grunnolíum sem hafa ólíka eiginleika til þess að ná fram sem bestri blöndu eða áferð.

Á meðan þið eruð að prufa ykkur áfram, og ef það sem þið eruð að búa til er drjúgt og endist lengi, þá mæli ég með því að byrja á að búa til minni skammta. Það er svo leiðinlegt að gera stóra skammta af einhverju sem þú endar svo á að fíla ekki og fer þá til spillis, ég tala af reynslunni! Það er mikið skemmtilegra að búa til fleiri minni skammta, því þetta er óttalega notalegt og nornalegt dundur.

Ílát fyrir heimagerðar olíur, sprey og krem fást í ýmsum umhverfisvænum verslunum svo sem Vistveru, Menu/Sambúðinni, í Jurtaapótekinu, og jafnvel í Søstrene Grene. En ég mæli líka með því að geyma umbúðir utan af serumum, fljótandi vítamínum (Floravital brúsarnir eru líka gordjus undir afleggjara!), stevíu-og vanilludropum, þær koma iðulega að góðu gagni og lokin af matreiðsluvörum passa oft á apótekaraflöskur ef þú átt ekki rétt lok.

Ég gerði uppskriftir með hlutföllum fyrir 100 ml. og 50 ml., en ef ykkur langar að prufa ykkur áfram varlega án þess að eiga fullt af allskonar olíum getið þið byrjað á að prufa minni skammta.

Uppskriftirnar

Grunnolíur:

Möndluolía: Ég nota möndluolíu sem aðal grunn. Hún smýgur mjúklega inn í húðina, nærir vel án þess að vera of þykk og ber ekki með sér sterka lykt. Rósaberjaolía: Í olíum eins og þeim sem ég er að gera er oft notuð E-olía sem er yndisleg, en ég fann ekki vegan E-olíu sem hentaði þegar ég var að undirbúa uppskriftina svo ég valdi rósaberjaolíu í staðinn, hún ekki alls ósvipuð. Nokkrir eiginleikar sem taldir eru tilheyra rósaberjaolíu eru til dæmis að draga úr örum og hrukkum og styrkja húðina, en mér finnst líka bara alltaf einhver lúxus fílingur yfir henni. Ég nota hana stundum eina og sér sem serum og finnst sérstaklega gott að setja hana á augabrúnir eftir litun og plokkun.


Ilmkjarnaolíur:

  • Lavender: Líklega heimsins vinsælasta olía, en listinnn af mögulegum frábærum áhrifum hennar er á lengd við meðal símaskrá. Hún er mikið notuð til að létta lund, til að hjálpa fólki að finna ró og sofna. Ekki skemmir fyrir að hún hefur sýkladrepandi eiginleika og virðist vera lykt sem leggst ágætlega í mikið af fólki.
  • Frankincense: Talin hjálpleg við öndunarfæravandamálum, auk þess sem hún er róandi og ilmar mjög vel ein og sér. Oft notuð við hugleiðslu.
  • Greip olía: Meðal annars talin létta lund, draga úr streitu og hafa góð áhrif á húðheilsu.
  • Cedarwood olía: Vellyktandi og vinsæl í ilmvötn. Talin róandi og geta hjálpað fólki með svefnvanda, auk þess sem hún er talin geta gagnast í baráttunni við acne, ör og langvarandi húðvandamál á borð við exem.
  • Mandarínu olía: sérlega sæt og kætandi sítrusolía. Talin hafa róandi áhrif og getað unnið gegn örum og jafnvel slitum, auk fjölmargra annarra góðra áhrifa.

Morgunolía 100 ml.
Þessi olía er örvandi og frískandi og á því betur við á morgnanna. Það er svo gott að taka svona fallega lykt með sér inn í daginn.

Hlutföll: 100 ml. af burðarolíu á móti 30-40 dropum af ilmkjarnaolíum

Ef þið eruð óvön því að nota ilmkjarnaolíur mæli ég með því að byrja á 30 dropum og bæta frekar við ef þið viljið sterkari ilm eða finna betur fyrir olíunum.

  • Möndluolía: 80% af burðarolíunni (ca. 80ml
  • Rósaberjaolía: 20% af burðarolíu (ca. 20ml)
  • Lavender ilmkjarnaolía: 15 dropar
  • Greip ilmkjarnaolía: 8 dropar
  • Cedarwood ilmkjarnaolía: 7 dropar


Kvöldolía 50 ml.
Þessi olía er róandi og nærandi og ilmirnir hjálpa okkur að slaka á og draga djúpt andann:

Hlutföll: 50 ml. af burðarolíu á móti 20 dropum af ilmkjarnaolíum

  • Möndluolía: 80% af burðarolíu (ca. 40ml)
  • Rósaberjaolía: 20% af burðarolíu (ca. 10ml)
  • Lavender ilmkjarnaolía: 10 dropar
  • Frankincense: 5 dropar
  • Mandarínuolía: 5 dropar

Ég mæli með því að byrja að bera á sig þunnt lag og finna á eigin skinni hversu hratt olían dregst inn í ykkar húð, þið gætuð þurft að leyfa henni að þorna í nokkrar mínútur áður en þið klæðið ykkur í þröng föt. Ég myndi segja að hún væri miðlungs lengi að fara inn í húðina, ég hef prufað ýmsar olíur sem sogast hvort sem er hraðar eða hægar inn.

Ég vona að þið hafið haft gaman og vonandi gagn af þessum lestri og uppskriftum. Gangi ykkur sem allra best að prufa ykkur áfram í heimagerðum dekurvörum!

- Sunna Ben, Reykjavegan

 

Mynd af konufreestocks on Unsplash

Myndir af ilmkjarnaolíum: aquaoleum.com